skip to Main Content
Þjónustuaðilar
Ásatrú

Ásatrú

Á undanförnum árum hafa fjölmargar hjónavígslur farið fram að heiðnum sið og oft hafa erlend brúðhjón komið til landsins í þeim tilgangi einum að láta vígja sig saman af goðum Ásatrúarfélagsins. Ástæða þess er sú að enn sem komið er hafa einungis ásatrúarfélögin í Danmörku og Noregi auk Íslands fengið viðurkenningu sem löggild trúfélög með þeim skyldum og réttindum sem slíku fylgir. Hjónavígslur þessar eru því fullkomlega gildur lögformlegur gjörningur. Oftast fer þessi athöfn fram undir berum himni og er skipulögð í samræmi við óskir brúðhjónanna hvað varðar staðsetningu, tónlist og aðra umgjörð athafarinnar.

Goðar félagsins sem hafa vígsluréttindi undirbúa og framkvæma lögformlegar athafnir Ásatrúarfélagsins s.s. hjónavígslu, nafngjöf og útför. Goðar sjá einnig um siðfestuathafnir og ýmsar aðrar vígslur og annast undirbúning þeirra.

Allar athafnir félagsins hefjast á helgun staðar og stundar, flutningi á völdum erindum úr Eddukvæðum og síðan taka við vígsluorð goða. Við allar athafnir eru frumkraftar jarðar til staðar og jafnan eldker eða hringur af kertum umhverfis vígslustaðinn. Athafnir félagsins eru þó miðaðar við hvern eintakling og þess vegna undirbúnar sameiginlega af goða og þiggjanda hverrar athafnar. Athafnir eru stundum haldnar í tengslum við önnur blót félagsins, en oftar eru þær haldnar á vegum þiggjanda athafnanna, ýmist við mannfjölda eða sem einkaathöfn. Þessir goðar félagsins hafa vígsluréttindi: Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði. Jóhanna G. Harðardóttir, Kjalnesingagoði og staðgengill allsherjargoða, Jónína Kr. Berg, Þórsnesingagoði, Baldur Pálsson, Freysgoði og Tómas V. Albertsson, seiðgoði.

Hjónavígsla er lögformleg athöfn og krefst nokkurs undirbúnings af hálfu goða og hjónaefna. Það er því gott að hafa samband við goða félagsins tímanlega. Hjónavígsla getur farið fram á þeim stað sem hjónaefni kjósa sér, jafnt innan húss sem utan og að höfðu samráði við goða.

Hjónavígsla hefst á helgun staðar og stundar, hjónaefni vinna eið að baugi og eru lýst hjón að réttum lögum í lok athafnarinnar. Hjónavígsluathafnir litast nokkuð af aðstæðum hverju sinni og því eru engar tvær nákvæmlega eins, enda gerðar í samráði milli goða og hjónaefna.

Birt með leyfi Ásatrúarfélagsins

Nánari upplýsingar á vefsíðu Ásatrúarfélagsins

Ásatrúarfélagið
Síðumúli 15, 108 Reykjavík
Sími: 561 8633 – Pósthólf 8668, 128 Reykjavík
Netfang: asatru@asatru.is

Back To Top
×Close search
Search