skip to Main Content
Þjónustuaðilar
Borgaraleg Vígsla

Borgaraleg vígsla

Borgaraleg vígsla stendur öllum til boða sem uppfylla skilyrði til hjúskapar. Flestar sýsluskrifstofur eru með rými (sal) til að framkvæma athöfnina en þar geta nokkrir af nánustu ættingjum og vinum hjónakornana komið saman á meðan á vígslunni stendur.

Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra framkvæma borgaralegar hjónavígslur. Oftast fara vígslurnar fram á sýsluskrifstofu á virkum degi á hefðbundnum opnunartíma. Brúðkaup.is hefur þó heyrt af ýmsum frávikum í þessum efnum og margir sýslumenn og fulltrúar þeirra um allt land eru opnir fyrir því að ferðast á vígslustað sem verðandi hjónin hafa kosið sér og gefa þau saman þar, jafnvel þó vígslan sé á löglegum frídegi (laugardegi td). Þessi liðlegheit eru þó ekki algild og hvetjum við þá sem hafa hug á borgaralegri giftingu að hafa samband við sýsluskrifstofuna í sínu umdæmi til að kanna sérstaklega hverjir starfshættir varðandi hjónavígslur eru á þeim tiltekna stað.

Í Reykjavík fara borgaralegrar hjónavígslur að jafnaði fram á skrifstofu sýslumanns að Skógarhlíð 6, virka daga kl. 15:00 eða 15:30. Æskilegt er að ákveða stað og stund fyrir hjónavígslu með góðum fyrirvara. Gott er að vita hvort gestir eiga að vera við athöfnina eða hvort setja eigi upp hringa.

Öll framlögð skjöl þurfa að vera í frumriti. Staðfest þýðing þarf að fylgja skjölum sem eru á öðrum tungumálum en ensku og norðurlandamálum. Óskað er eftir að öll skjöl vegna hjónavígslu séu lögð fram samtímis og að þau hafi verið lögð fram tveim vikum fyrir áætlaðan vígsludag. Ef það þykir þægilegra, þá má senda skjölin fyrst á faxi eða skönnuð í tölvupósti, en afhenda frumrit síðar, þó ekki seinna en 5 dögum fyrir áætlaðan vígsludag. Ef skjölin berast ekki innan tilskilins tíma, er litið svo á að ekki sé lengur óskað eftir hjónavígslu.

Þeir sem eru ríkisborgarar eða búsettir í Danmörku, Noregi, Svíþjóð eða Finnlandi, lesi þetta.


 

Skjölin sem leggja þarf fram:

1. Hjónavígsluskýrsla
Eyðublað fyrir hjónavígsluskýrslu er hér, en einnig er hægt að nálgast á skrifstofu sýslumanns eða fá það póstsent. Hjónaefnin og tveir svaramenn skrifa undir hjónavígsluskýrsluna áður en hún er lögð inn. Svaramenn þurfa að vera 18 ára eða eldri og fjárráða, en þeir þurfa ekki að vera viðstaddir athöfnina sjálfa.

2. Fæðingarvottorð
Bæði hjónaefni þurfa að leggja fram fæðingarvottorð. Fæðingarvottorð fyrir Íslendinga eru gefin út hjá þjóðskrá Íslands, Borgartúni 21, Reykjavík. Erlendir ríkisborgarar þurfa að afla fæðingarvottorðs frá sambærilegu yfirvaldi í sínu heimalandi.

3. Hjúskaparvottorð
Bæði hjónaefni þurfa að leggja fram hjúskaparstöðuvottorð, það má ekki vera eldra en fjögurra vikna á áætluðum vígsludegi. Hjúskaparstöðuvottorð fæst hjá þjóðskrá Íslands, Borgartúni 21, Reykjavík. Ef hjónaefni býr erlendis, þarf sambærilegt gagn frá yfirvöldum þess lands.

4. Ef hjónaefni var áður í hjónabandi / staðfestri samvist sem lauk með lögskilnaði
Leggja þarf fram lögskilnaðarleyfi. Lögskilnaðarleyfi sem gefin voru út fyrir 1. júlí 1992 má nálgast í dómsmála – og mannréttindaráðuneytinu. Lögskilnaðarleyfi sem gefin voru út eftir 1. júlí 1992 fást hjá viðkomandi sýslumannsembætti. Erlend lögskilnaðarleyfi þarf að fá staðfest í dóms – og kirkjumálaráðuneytinu, Skuggasundi 3, Reykjavík – það gildir þó ekki um lögskilnaðarleyfi gefin út í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.

5. Ef hjónaefni er ekkill / ekkja
Leggja þarf fram gögn er sýna að skiptum dánarbús sé lokið frá viðkomandi sýslumannsembætti.

6. Dvalarleyfi
Skilyrði hjónavígslu er að hjónaefni hafi löglega dvöl í landinu á vígsludegi. Erlendir ríkisborgarar þurfa að leggja fram gögn því til staðfestingar. Þar getur verið um að ræða dvalarleyfi, vegabréfsáritun eða sönnun um komudag (stimpill í vegabréf, flugmiði).
Upplýsingar um dvalarleyfi, vegabréfsáritanir og fl. eru á vef Útlendingastofnunar.

7. Skilríki
Sýna þarf skilríki með mynd (ökuskírteini, vegabréf). Það þurfa að vera vegabréf ef um erlenda ríkisborgara er að ræða.

Upplýsingar fengnar af vefsíðu Sýslumannsins í Reykjavík

 

Siðmennt

Einnig er hægt að framkvæma veraldlega/húmaníska athöfn hjá Siðmennt – Félagi siðrænna húmanista á Íslandi. Frá 29. maí 2013 hafa athafnarstjórar Siðmenntar haft réttindi til að gifta lögformlega. Sjá nánar á heimasíðu Siðmenntar

Back To Top
×Close search
Search