skip to Main Content
Þjónustuaðilar
Gæs

Gæs

Þegar verið er að leggja drög að gæsagleði þá koma oft upp margar skemmtilega og furðulegar pælingar. Reyndar heyrum við oftar af því að fólki finnist það skemmtilegast að eiga notalegt en fjörugan dag með vinum þar sem blandað saman léttu gríni og svo notalegheitum. Það er tilvalið að blanda saman hugmyndum, það fer allt eftir því hversu langan tíma þið hafið.


Partý með gæsinni

 

Eitt af því vinsælasta er að fara með gæsina í dekur á snyrtistofu. Margir staðir eru vinsælir fyrir það að þegar gæsin hefur fengið sitt dekur (t.d. andlitsbað, handasnyrting eða nudd) þá gefst öllum vinkonuhópnum tækifæri á að vera saman í heita pottinum. Þar er hægt að tala saman, segja sögur og brandar og skála við tilvonandi brúður. Þar er góð aðstaða til að punta sig og gera sig fína fyrir viðburðarríka kvöldstund með vinkvennum sínum.

Til að hafa einhvern hrell er tilvalið að láta einhvern óþekktan mann ná í gæsina og t.d. fara með hana í sund, göngutúr í heiðmörk, hestbak, mótorhjólaferð, að versla, gefa öndunum eða kenna sér (maga-)dans, hugmyndirnar eru óteljandi.

Það er sniðugt að nýta áhugamál gæsarinnar á einhvern hátt. Ef hún er t.d. „aerobic freak“ þá væri hægt að láta hana kenna leikfimitíma í líkamsræktastöð.

Ef þið farið allar saman út að borða er ein hugmynd að gæsin fengi eingöngu brauð með osti og dökkan bjór allt kvöldið á meðan þið borðið ljúffenga máltíð með góðu víni (eða bara gosi).

Kringlan og Smáralindin hafa verið vinsælir staðir til að láta gæs valsa um uppáklædd fígúrufötum (80. tískan er æði, veiðiföt þar sem hún er á steggjaveiðum o.s.frv.). Gæsin gæti jafnvel spurt vegfarenda um það hvaða álið þeir hafa á hjónabandi.

Sjóstangaveiði í pollagalla og stígvélum er góð útivera. Ef til vill gefst möguleiki á að fá eldaðan þann fisk sem veiddur er í ferðinni þannig að hópurinn heldur sig saman.

Að gefa gæsinni nauðsynlega hluti fyrir hjónabandið er ekki vitlaus hugmynd. Þetta þarf alls ekki að kosta mikið. Kaupið hluti eins og t.d. gúmmíhanska (svo hún geti þrifið klósettið vel), Playgirl, (þá verður hún aldrei einmana), hið sívinsæla egg (stundum þá eru mennirnir ekki að standa sig), blúndu G-streng (svo hún geti ALLTAF tælt karlinn sinn), handjárn (ja…, hún ræður hvað hún gerir við það) o.s.frv. Þessar litlu gjafir er hægt að gefa henni af og til yfir allt kvöldið, jafnvel má láta litla málshætti eða sögu fylgja hverri og einni gjöf. Þetta uppátæki á eftir að veita mikla kátínu í hópnum.

Það er alltaf möguleiki að fara í stelpuferð uppí sumarbústað, grilla góðan mat, spila og spjalla. Góð stund í góðra vina hópi er gulls ígildi. Keila, litabolti, go-kart, fallhlífarstökk, flugferð, kayakferð, river rafting eru einnig hugmyndir sem eru vel framkvæmanlegar. Karókí er alltaf vinsælt. Það hafa allir gaman af því að syngja í góðra vina hópi.

Hvað sem verður fyrir valinu þá er gott að nefna það að allt er gott í hófi.

Þjónustuaðilar sem bjóða upp á gæsa- og steggjapartý í þjónustuskrá brudkaup.is

Back To Top
×Close search
Search