skip to Main Content
Þjónustuaðilar
Leikir

Leikir

Einnig má finna hugmyndir og uppákomur í greininni Hugmyndalisti fyrir veislustjóra.

Ábendingar um nýja leiki er vel tekið og þeir sem luma á skemmtilegum leikjum eru beðnir um að senda lýsingu á þeim á brudkaup@brudkaup.is.

Hér eru nokkrar hugmyndir af samkvæmisleikjum:

Barbie og Ken

Leikurinn með Barbie og Ken er alltaf vinsæll (Hve vel þekkir þú maka þinn). Brúðhjónin sitja bak í bak fyrir framan alla gestina. Þau eru bæði með sitthvora Barbiedúkkuna og Kendúkkuna. Nú eru hjónin spurð spurninga sem allar ganga út á það hvor þeirra telur sig vera sterkari í því málefni sem spurt er um. T.d.: Hvort ykkar er leiðandi aðilinn í sambandinu eða hver er duglegri við matseldina? Ef brúðurin telur sig vera leiðandi þá heldur hún Barbiedúkkunni uppí loftið og brúðguminn setur sína dúkku (ef hann telur sig vera leiðandi þá setur hann Ken uppí loftið og öfugt). Þetta er mjög skemmtilegur leikur, sérstaklega þar sem brúðhjónin sjá ekki hvort annað. Það er um að gera að hafa spurningarnar margar og misjafnar.

Þennan leik (Barbie og Ken) er einnig hægt að setja upp á þann hátt að brúðhjónin fá blöð og penna í hönd. Þau sitja enn bak í bak og sjá þannig ekki hvað hvort þeirra skrifar á blöðin. Nú eru þau spurð spurninga er við koma þeim sjálfum t.d.: Hver er uppáhalds matur brúðgumans? Bæði eiga þau að skrifa svarið á blað (hann fyrir sig og hún það sem hún telur vera rétta svarið fyrir hann) og sýna áhorfendum. Þetta getur orðið stigakeppni milli brúðhjónanna: jafn margar spurningar um hvorn aðila fyrir sig, stig eru gefin til þess aðila sem svarar spurningunni rétt um makann sinn.

Að mála kveðju

Það er skemmtileg hugmynd að láta gestina „mála“ kveðju til brúðhjónanna. Þið kaupið tilbúin strekktan Málingastriga (eins og málarar nota og fæst í málara- og föndurbúðum). Kaupið málningu, þekjuliti t.d. og setjið þetta á borð eða málningatrönur. Þegar gestirnir koma þá geta þau málað eitthvað fallegt (ekki að skrifa nafnið sitt) á strigann og þegar allir eru búin að teikna er komið hið fallegasta málverk í þeim litum sem þið setjið fram. Þetta er skemmtileg minning og getur orðið hið óvenjulegasta og fallegt listaverk.

Næluleikur

Gestir eru látnir hafa nælu þegar komið er inn í veislu, sem þeir verða að festa á sig. Veislustjóri skýrir strax í byrjun veislu frá leiknum sem látinn er ganga alla veisluna, en fundin eru nokkur bannorð t.d. brúðarkjóll, nafn brúðguma, osfrv. einnig að bannað sé að krossleggja fætur, en ef einhver gerir/segir bannorðin þá má sá sem heyrði það taka næluna af viðkomandi og næla á sig. Gengur semsagt útá að safna sem flestum nælum í gegnum alla veisluna þegar fólk er að spjalla saman og sigurvegari fær svo jafnvel einhver verðlaun. Skemmtilegur leikur sem leyfir þátttöku gesta í veislunni og eða brýtur aðeins ísinn.

Lýsingarorðasaga

Skrifið fallega sögu um ást og hjónaband. Skiljið eftir eyður fyrir öll lýsingaorð og sparið ekki fjölda þeirra í sögunni. Látið pappírsörk ganga um salinn þar sem gestir eru beðnir um að skrifa niður lýsingaorð. Þegar hver gestur er búinn að skrifa sitt lýsingaorð þá brýtur hann blaðið á þann veg að næsti maður sér ekki það orð sem hann skrifaði. Þegar allir hafa skrifað orð þá fyllið þið orðin inní söguna og út kemur skemmtileg blanda sem lesin er upp fyrir gestina.

Lyklaleikurinn

Látið smíða nokkrar eftirlíkingar af lykli. Þegar lítið ber á þá látið nokkra herramenn eða dömur fá lyklana og biðjið þá/þær um að koma með þá þegar beðið verður um það. Við tækifæri þá rifjið þið upp fyrir gestum þegar brúðhjónin voru að kynnast og hvernig aðstæður voru þá (t.d. íbúðarmál). Í framhaldi af því þá biðjið þið þá einstaklinga sem enn hafa lykil af íbúð brúðgumans/brúður að koma og skila þeim þar sem hann/hún er nú gengin(n) í það heilaga. Þá standa þeir gestir upp sem fengu lykil og skila honum til veislustjóra. Þetta vekur mikla kátínu.

Myndasýning

Það er alltaf gaman að setja saman myndasýningu af brúðhjónunum. Það getur tekið tíma að finna gamlar og nýlegar myndir af brúðgumanum og brúðinni og því vissara að hafa nægjan tíma. Það er um að gera að finna myndir af sem flestum tímabilum (ungabarn-skólaaldur-unglingur-tómstundir-o.s.frv.). Flestir veitingasalir bjóða uppá búnað til að setja upp rafræna glærusýningu (PowerPoint). Ef ekki þá er alltaf hægt að leigja eða fá lánaðan búnað til þess (sýningartjald og ferðatölva). Þetta kemur brúðhjónunum skemmtilega á óvart og er tilvalið skemmtiatriði á meðan borðað er, með hugljúfri tónlist undir.

Að næla í brúðina

Næluleikurinn getur verið mjög skemmtilegur. Hafðu með þér 5-20 stk. af nælum (þessum litlu gulllituðu). Brúðurin er beðin um að koma og nælurnar nældar á hana (þegar brúðguminn sér ekki til) og svo á brúðguminn að leita af þeim. Þetta verður ef til vill svolítið mikið káf en mjög fyndið.

Að sækja hlut

Ef salnum er skipt uppí mörg borð þá er um að gera að nýta borðin sem lið. Einn fulltrúi af hverju borði fer inná mitt dansgólfið þar sem stólum er raðað upp (eins og í gamla góða stólaleiknum þar sem dansað er í kringum stólana og einn og einn stóll tekinn í burtu þar til einungis tveir einstaklingar eru eftir). Þessi leikur er þannig að allir fá sér sæti og svo segir veislustjórinn að hann vilji fá hvern og einn til að sækja ákveðinn hlut út í salinn á sitt borð t.d. gylltan eyrnalokk. Viðkomandi fulltrúar hlaupa hver til síns borðs og ef hann er heppinn er einhver kona svo elskuleg að láta hann fá lokkinn. Því næst hleypur fulltrúinn eins fljótt og hann getur aftur í stólinn sinn. Svona gengur þetta koll af kolli þar til einn stendur uppi sem sigurvergari. Það er um að gera að hafa hlutina, sem finna á, skrýtna en þó almenna t.d. brúnn karlmannsskór í stærð 44 eða svartar nælonsokkabuxur. Sá síðasti sem kemur hefur ekkert sæti og er það borð þar með úr leik. Það borð sem endar uppi með síðasta stólinn er sigurvegari.

Slá í glasið

Vinsæll leikur er „slá í glasið“. Hann virkar þannig að í hvert skipti sem einhver gestanna slær í glasið sitt þá taka hinir gestirnir undir og brúðhjónin eiga að standa uppá stól og kyssast. Það þarf að passa að þetta sé ekki gert of oft því þá hættir þetta að vera gaman. Einnig er hægt að nota þá aðferð að stappa fótunum niður.

Samsöngur

Að syngja saman er alltaf gaman. Til að gera þetta enn skemmtilegra er möguleiki á að skrifa texta af hressu lagi á blað sem fest er undir alla stólana í salnum. Gestirnir þurfa svo sjálfir að sækja blaðið þegar veislustjórinn segir til. Byrjað er að syngja lagið rólega og smátt og smátt er hraðinn aukinn og í lokinn eru allir í kapp við hraðann og oft á tíðum endar þetta í hlátrasköllum (veljið lag sem all flestir þekkja og er ekki langt t.d. „Vertu til er vorið kallar á þig“). Það er líka góð hugmynd að setja saman söngbók/blað með skemmtilegum og hressum lögum sem vel eiga við í brúðkaupsveislum Hér á vefnum er að finna safn söngtexta en mikilvægt er að velja lög sem all flestir þekkja og eiga auðvelt með að syngja. Gott er að hafa allavega einn aðila sem treystir sér til að leiða hópsöng, það þarf alls ekki að vera í höndum veislustjóra.

Skrifa heilræði

Það er sniðugt að bjóða gestunum að skrifa heilræði til brúðhjónanna. Það er hægt að útfæra þetta á misjafnan veg. Einn möguleikinn er að gestirnir skrifi eina setningu fyrir brúður og eina fyrir brúðgumann. Miðunum er svo safnað saman í sitthvora skálina og brúðurin les upp heilræðin fyrir fyrir brúðgumann og öfugt. Einnig er hægt að láta gestina skrifa þau heilræði sem þau vilja til brúðhjónanna (t.d. á hjartalagaða miða) og þessum miðum er komið fyrir á t.d. fallegri grein (Birkigreinar úr garðinum koma vel að notum, settar í fallegan vasa) eða pottaplöntu (viskutréið). Miðana er hægt að festa með litlum klemmum eða bara teiknibólum.

Hópdansar

Það er alltaf góð hugmynd að brjóta upp formlegheitin með dansi. Hópdansar eins og Macarena, fugladansinn eða Kónga eru alltaf vinsælir og flestir þekkja. Hringdansinn þar sem konur eru fyrir innan og karlar fyrir utan og snúa að hvort öðru vekur alltaf kátínu. Þá dansa kynin í sitthvora áttina og þegar tónlistin stöðvast þá dansa pörin saman, sem enda á móti hvort öðru, við næsta lag.

Back To Top
×Close search
Search