skip to Main Content
Þjónustuaðilar
Ræðuhöld

Ræðuhöld

Það er mikill heiður að fá að vera veislustjóri í brúðkaupi. Veislustjóri ber ábyrgð á mörgum hlutum t.d. að raða upp dagskrá fyrir skemmtiatriðin og ræðuhöldin. Í stuttu máli er hann kynnir kvöldsins. Það er vandaverk að stjórna þessum þáttum á hlutlausan en skipulagðan hátt. Veislustjórinn þarf að hafa allt á hreinu og ekki líta út sem taugaveikluð hrúa sem ekki getur tjáð sig fyrir framan almenning. Það krefst hugrekkis og þjálfunar að standa frammi fyrir fjöldanum og kynna sig og aðra. Það tíðkast að veislustjórinn kynni matseðilinn, hljómsveitina, söngvarana og allar þær uppákomur sem eiga sér stað í veislunni. Það er allur gangur á hver það er sem er valinn veislustjóri. Þetta er val brúðhjónanna. Hægt er að hafa tvo aðila, einn frá hvorri fjölskyldu, eða einn. Einnig er hægt að fá reynda þekkta menn til að taka veislustjórnina að sér (t.d. leikarar). Hér á eftir koma nokkrir punktar sem veislustjórar sem og aðrir ræðumenn/konur ættu að huga að.

Röddin er eitt af aðalverkfærum okkar til að tjá okkur. Við notum röddina, ásamt líkamsmáli, til að koma á framfæri ákveðnum boðskap. Það að rödd berist rétt og hljómi fallega er jafn mikilvægt og að tala skýrt. Það er ekkert fallegt við að heyra þvingaða og strekkta rödd. Lítum á nokkrar leiðir sem auka á fallegri hljóm raddarinnar:

Slökun á vöðvum: Strekktir og klemmdir vöðvar afskræma röddina og minnka hljóm hennar. Mikilvægt er að slaka á öxlum, hálsi, neðri kjálka, munni og tungu.

Loft er aðalhráefni raddarinnar. Loftið berst frá lungum upp barkann og kemur af stað titring raddbanda í barkakýli.

Djúpöndun (þindaröndun) er talin besta leiðin þegar slaka þarf á sem flestum vöðvum.

Opnun á hálsi og munni. Það er mikilvægt að opna munninn vel þegar talað er, röddin berst betur og orðin verða skýrari.

Forðist að ræskja ykkur mikið áður en kemur að málflutningi, það getur sært raddböndin og valdið óþægindum. Betri lausn er að reyna að kyngja vel til að losna við hæsistilfinninguna, fá sér sopa af vatni eða hósta lauslega.

Við viljum halda áheyrendum við efnið sem við erum að tala um. Til eru mörg verkfæri sem styrkt geta áheyranleikann. Raddstyrkur er áhrifaríkt tól til að leggja áherslu á, hafa áhrif á og til að merkja skil eða tengingu málefnis. Hækkun á röddinni gefur til kynna ákveðni og aukin tilfinningarþunga. Lækkun á röddinni kallar á aukna einbeitingu áheyranda. Þagnir, hraðabreytingar, áherslur, tónbrigði og tilfinningalitun (myndlíking) eru allt verkfæri sem góð eru til að styrkja áheyranleikann. Rétt blanda ef þessum verkfærum kallar á skýrt, blæbrigðaríkt og áhugavert samtal.

Æfingin skapar meistarann.

Hvað skýrleikann varðar þá er gullin regla að opna munninn vel og hreyfa varirnar aðeins meira en venjan er við eðlilegar samræður. Með því að móta hvert hljóð af nákvæmni næst skýrleiki í tali. Það er mjög gott að gera „munnleikfimi“ áður en hafist er handa við ræðuhöld. Hvert hljóð verður að fá sinn tíma en það er hætta á að sérhljóð týnist þegar talað er hratt.

Lítum stuttlega á „hraðann“ í ræðuhöldum og kynningum. Lang flestir eiga það til að tala of hratt og fljótfærnislega þegar kemur að því að tala frammi fyrir áheyrendur. Helsta ástæðan er iðulega sú að verið er að flýta sér að ljúka máli (streitu einkenni) eða að viðkomandi tekur upp sama hraða og notaður er við eðlilegar samræður. Ágæt þumalputtaregla er að tala um 110 orð á mínútu. Málhvíld annað slagið er áhrifarík tækni. Hvíldi kallar á eftirvæntingu og athygli. Málhvíld er áhrifaríkust: í upphafi kynningar, í miðri setningu, milli setninga og undir lokin á ræðunni.

Back To Top
×Close search
Search